Afsláttur í söfn

Reykjavíkurborg veitir mentor og barni ( mentorpari) frían aðgang að söfnum er borgin rekur. Þetta á einungis við börn sem koma úr grunnskólum í Reykjavík.
Ef farið er inná heimasíðu þá sjáið þið hvaða söfn um ræðir.

Kveðja Halldóra

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Upphafsdagurinn 8. október

Upphafsdagur mentorverkefnisins Vináttu!

Kæru foreldrar/forráðamenn og börn sem eru þátttakendur í mentorverkefninu Vináttu skólaárið 2015-2016.

Við bjóðum ykkur velkomin á upphafsdag verkefnisins  fimmtudaginn 8. október   kl. 17:30-19:00 í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Mikilvægt er að allir mæti því verkefnið hefst þennan dag og börnin hitta mentora sína í fyrsta sinn.

Vinsamlegast tilkynnið forföll í síma 896-4340 .

Með von um að sjá ykkur öll.

Bestu kveðjur,

Starfsfólk mentorverkefnisins Vináttu.

Nánari upplýsingar er að fá í síma 896-4340.  Einnig er hægt að senda tölvupóst á vinatta@vinatta.is

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Nýtt lesefni

Vakin er athygli á að nýtt lesefni um mentorverkefnið Vináttu/Nightingalen   hefur verið sett inn undir útgefið efni.

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Mentorverkefnið Vinátta hefst í byrjun október

Í vetur er fjórtánda starfsár mentorverkefnisins Vináttu. Verkefnið er aðeins með nýju sniði í vetur þar sem samstarf verður við Listaháskóla Íslands í formi fjölbreyttra vinnustofa fyrir börn og mentora. Þeir sem hafa áhuga á að gerast mentorar þurfa að sækja um námskeiðið innan síns skóla en einnig hér á heimasíðunni undir link á umsóknir mentora.

Með kveðju

Verkefnisstjórn

Posted in Uncategorized | 1 Comment

Lokahátið í Laugardal

Lokahátiðin var haldin í Húsdýra- og fjölskyldugarðinum þann 18. apríl með hefðbundnu sniði – grilluðum pylsum og hinum óviðjafnanlega Lalla töframanni.      

 

2320150418_1035394 Continue reading

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Bingó í Flensborg

Bingó1Mentorpör á Höfuðborgarsvæðinu og frá Borgarnesi hittust 29. janúar og spiluðu bingó. Vinningarnir voru fjölbreyttir en áhersla var á að í vinning væri eitthvað sem mentorpörin gætu nýtt sér saman. Fyrsti vinningur voru miðar í leikhús fyrir mentor og barn. Samveran heppnaðist vel og mætingin góð og mikil spenna ríkti í hópnum.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Viðtal við mentor í Kvennó

24.febr. 2015-7

Þetta skemmtilega viðtal birtist í Fréttablaðinu þann 23. febrúar 2015.

Þegar ég var barn í Langholtsskóla var ég svolítið feimin. Þess vegna fékk ég mentor. Mentorinn minn var stelpa úr Menntaskólanum við Sund sem ég hitti alltaf einu sinni í viku í heilan vetur. Við fórum í keilu, sund, bíó og gerðum margt fleira skemmtilegt,“ segir Bogey Rún Beck Helgadóttir, nemandi í Kvennaskólanum í Reykjavík.

Hún segir þessar stundir með menntaskólastúlkunni hafa gefið sér mikið.

„Mér fannst gaman að geta sagt hinum krökkunum frá einhverju sem ég hafði upplifað utan skólans og tel að þetta prógramm hafi hjálpað mér.“
Bogey segir annan nemanda úr sama bekk hafa líka haft mentor þennan vetur. „Við vorum oft saman því mentorarnir okkar voru vinkonur,“ rifjar hún upp.

Nú er Bogey í leiðbeinandahlutverkinu. Frá því í október í haust hefur hún verið mentor og hitt Alexander Khandong, nemanda í Álfhólsskóla í Kópavogi, vikulega. Hann er átta ára og á foreldra frá Taílandi.

„Það er misjafnt hvernig fólk vill hafa fyrirkomulagið á hittingunum en mér finnst ágætt að hafa mentordag, alltaf sama vikudaginn, og gera þá ráð fyrir þessari samveru.

Við höfum þetta þannig að ég sæki Alexander í skólann og skutla honum heim á eftir af því að ég er á bíl. Ég reyni alltaf að vera komin með hugmyndir að einhverju til að gera en spyr hann alltaf líka hvort það sé eitthvað sérstakt sem hann langi að gera. Það er fastur liður hjá okkur að fara beint heim til mín og borða Cheerios. Það er mikilvægur dagskrárliður.

Við spjöllum mikið saman, Alexander er rosalegur spjallari. Oft förum við eitthvað út á eftir en höfum líka bakað mikið saman heima hjá mér. Honum finnst rosa gaman að baka. Við höfum líka farið í bíó og á bingó og horft á sjónvarp og vídeó.“

Bogey veit um fleiri nemendur Kvennaskólans sem hafa valið að vera mentorar þetta árið og sinna krökkum á aldrinum sjö til níu ára á svipaðan hátt og hún. En veit hún hvernig valið er í yngri hópinn?

„Ég held að krakkar sem eru af erlendum uppruna, eða nýfluttir í hverfið og þekkja ekki marga, hafi forgang,“ svarar hún og vonar að þeir sem taka þátt í mentorverkefninu á þessum vetri eigi eftir að hittast.
Markmið og hugmyndafræði
Vinátta er samfélagsverkefni þar sem lögð er áhersla á gagnkvæman ávinning með því að börn og ungmenni læri af aðstæðum hvors annars. Það byggir á þeirri hugmyndafræði að samskiptin séu jákvætt innlegg í líf barnsins því mentorinn verður barninu fyrirmynd og bætir möguleika þess við mótun sjálfsmyndar.

Börnin eiga að …
kynnast nýjum hugmyndum, aðstæðum og öðlast nýja þekkingu
og reynslu.
styrkja sjálfsmynd sína og auka félagsfærni.
kynnast nýjum aðstæðum til skemmtunar.
kynnast möguleikum til náms.

Mentorarnir eiga að …
þroska félagslega færni og samskiptahæfni.
eiga uppbyggileg samskipti við börn og forráðamenn þeirra.
laga sig að margbreytilegum aðstæðum.
vinna að velferð barna og öðlast víðtæka reynslu í samskiptum við börn.
heimild: vinatta.is

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Grein um mentorverkefnið frá VMA

„Það hefur verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að taka þátt í þessu,“ segir Heiðar Freyr Leifsson, nemandi á félagsfræðabraut VMA um Mentorverkefnið Vináttu sem hann hefur í vetur tekið þátt í ásamt rösklega tuttugu öðrum nemendum í VMA og MA.

Rekstur Mentorverkefnisins Vináttu hefur verið á höndum Velferðasjóðs barna á Íslandi en verkefnið hófst árið 2001. Í röskan áratug hafa nemendur á 3. og 4. ári í VMA tekið þátt í verkefninu. Mentor er alþjóðlegt hugtak sem oftast er notað yfir þroskaðri og reyndari einstakling sem gefur sér tíma til að hverfa frá sínum daglegu störfum yfir ákveðinn tíma til þess að aðstoða sér yngri og óreyndari einstakling á ýmsum sviðum. Hlutverk mentors er meðal annars að veita stuðning og góð ráð en einnig að vera fyrirmynd, félagi og trúnaðarvinur. Samband og samskipti mentors og einstaklings kallast „mentoring“. Mentorverkefnið Vinátta byggir á þeirri hugmyndafræði að samskipti barns og mentors séu jákvætt innlegg í líf barnsins og mentorinn verði barninu fyrirmynd og veiti því stuðning.

Hér á Akureyri taka sem þátt í verkefninu nemendur í VMA og MA undir handleiðslu fagfólks í báðum skólum. Ásdís Birgisdóttir, námsráðgjafi í VMA, segir að reynslan af Mentorverkefninu sé almennt mjög góð fyrir bæði framhaldsskólanemendur og grunnskólakrakkana en um er að ræða nemendur 4. bekkjar í grunnskólum Akureyrar. Grunnskólarnir velja þá nemendur sem taka þátt í verkefninu og mörgum tilfellum er um að ræða börn sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt uppdráttar félagslega og einnig eru dæmi um börn af erlendu bergi brotin sem hafa átt erfitt með að laga sig að íslensku samfélagi. Um er því að ræða pör sem samanstendur af mentor (framhaldsskólanemanum) og grunnskólabarni. Miðað er við að viðkomandi hittist að jafnaði einu sinni í viku og geri eitthvað skemmtilegt saman. Verkefnið hófst í október sl. og lýkur í apríl. Velferðasjóður barna greiðir hverjum mentor 10 þúsund krónur á önn sem hann nýtir til þess að greiða útlagðan kostnað, t.d. að fara saman í bíó, á kaffihús eða eitthvað annað.

„Ég hef farið með mínum grunnskólanema í t.d. bíó og sund. Auk þess að hittast með viðkomandi grunnskólabörnum höfum við mentorarnir og börnin reynt að hittast öll saman annað slagið og gera eitthvað skemmtilegt. Til dæmis hittumst við fyrir um tveimur vikum og unnum saman með ákveðið myndaþema,“ segir Heiðar Freyr Leifsson en þátttaka í mentorverkefninu gefur viðkomandi nemendum námseiningar í gegnum sérstakan áfanga í VMA.

Guðbjörg Þórarinsdóttir, nemandi á félagsfræðabraut VMA, er einnig þátttakandi í Mentorverkefninu. Hún sagðist hafa komið inn í verkefnið þegar aðeins var liðið á haustönnina vegna forfalla. „Ég sé ekki eftir að hafa farið í þetta verkefni, það virkar vel á mig,“ segir Guðbjörg og nefnir að hún hafi meðal annars farið með sínum grunnskólanema, sem er stúlka í Brekkuskóla, í keilu, bakaríið, fengið sér ís o.fl. „Og núna á fimmtudaginn hefur Leikfélag Akureyrar boðið okkur mentorunum að fara með krakkana á forsýningu á Lísu í Undralandi,“ segir Guðbjörg og bætir við að á nokkrum stofnunum á vegum Akureyrarbæjar sé frír aðgangur fyrir þátttakendur í Mentorverkefninu, t.d. í sund, á skauta og á skíði í Hlíðarfjalli.

 

 

 

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Mentordagurinn 24. febrúar 2015

Þann 24. febrúar var alþjóðlegi mentordagurinn. Á þessum degi hefur verið vakin athygli á verkefninu á fjölbreyttan hátt. Nemendur í skapandi tónlistarmiðlun kynntu fyrir krökkunum ýmis hljóðfæri og tónlistarsköpun og sömdu þau í sameiningu stutt lag ásamt texta um vináttu. Hjá hönnun- og arkitektúr var sköpun og skali í forgrunni þar sem krakkarnir léku sér með að teikna, skala upp myndir og hluti með legó og leir. Listkennslunemar buðu svo krökkunum í ýmis verkefni sem virkjuðu sköpunarkraftinn, m.a. hópverkefni, klippimyndir, djöflafælur og tónlist sem uppspretta málverks.
Frábært framtak nemenda við Listaháskólann sem heppnaðist vel.

24. febr. 2015_1 24. febr.2015-4 24. febr_2015-2 24.febr. 2015-6 24.febr.2015-3 24.febr.2015-5

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Viðtal við mentorpar

Á heimasíðu The Nightingale Network má sjá frásögn íslensks mentorpars af upplifun sinni á verkefninu. Slóðin er: http://nightingalementoring.org/ og síðan í newsletters.

 

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment